Stjórnarstöður ELSA Ísland lausar til umsóknar 2025/2026
ELSA Ísland auglýsir stöður í stjórn félagsins lausar til umsóknar fyrir starfsárið 2025/2026.
ELSA Ísland er hagsmunafélag laganema sem heldur úti margþættri starfsemi hér á landi, sem fyrst og fremst felst í að efla tengsl íslenskra laganema við kollega þeirra víðs vegar um Evrópu. Félagið stendur fyrir öflugu fræðastarfi, málþingum og fjölda annarra viðburða.
Áhugasamir og metnaðarfullir einstaklingar sem hafa ríkan áhuga á félagsstörfum eru hvattir til að sækja um. Jafnframt er áhugi á alþjóðlegu samstarfi, sem og alþjóðlegri lögfræði, kostur. Aðild að félaginu er skilyrði fyrir kjörgengi.
Senda skal umsókn á netfangið info@is.elsa.org. Umsókn skal innihalda fullt nafn frambjóðanda, við hvaða háskóla umsækjandi stundar nám við og hvaða stöðu umsækjandi sækist eftir. Umsókn skal jafnframt fylgja stutt kynningarbréf þar sem fyrri félagsstörf eru rakin, ásamt hverju því sem umsækjandi telur að kunni að reynast honum til framdráttar í störfum hans fyrir félagið. Umsóknarfrestur er til 21. september kl. 23:59.
Ef þið hafið áhuga á að víkka sjóndeildarhringinn og komast í tæri við sterkt tengslanet laganema sem nær um alla Evrópu, ekki hika við að sækja um! 1-5 árs laganemar eru velkomnir í stjórn ELSA Ísland.
Eftirfarandi stjórnarstöður eru lausar til setu:
Aðalritari (e. Secretary General)
Aðalritari er eiginlegur varaformaður ELSA Ísland. Hans helsta hlutverk er stýring, skipulagning og umhirða félagsins. Hann ritar fundargerðir og heldur utan um ákvarðanir félagsins, ásamt því passar hann að lög og samþykktir félagsins séu í samræmi við lög ELSA International.
Framkvæmdastjóri fræðastarfa (e. Vice President in charge of Academic Activities)
Framkvæmdastjóri fræðastarfa fer með framkvæmd nokkurra af stærstu verkefnum ELSA Ísland, m.a. sinnir hann Mannréttinda- og réttarríkisfræðslu ELSA (The Rule of Law Education - ROLE). Jafnframt getur hann sett á fót ýmis fleiri verkefni á akademískum grunni eins og lagarannsóknarnefndir.
Framkvæmdastjóri atvinnutækifæra (e. Vice President in charge of Professional Development)
Framkvæmdastjóri atvinnutækifæra hefur það hlutverk að kynna íslenska laganema fyrir þeim atvinnutækifærum sem þeim bjóðast á vegum ELSA og aðstoða þá við umsóknarferlið, ásamt því að halda viðburði og vinnustofur sem eru til þess fallnar að undirbúa laganema fyrir atvinnuleit og fyrstu skrefin í lögfræðitengdum störfum.
Framkvæmdastjóri ráðstefna (e. Vice President in charge of Seminars & Conferences)
Hlutverk framkvæmdastjóra ráðstefna miðar fyrst og fremst í að skipuleggja verkefni sem snúa að menningarskiptum, þróun samstarfs og persónulegra samskipta og lagaþekkingar. Fyrirlestrar, pallborðsumræður, málstofur, ráðstefnur, námsheimsóknir og stofnanaheimsóknir eru meðal verkefna sem framkvæmdastjóri ráðstefna skipuleggur og heldur utan um.

